Helluborð

Ráðleggingar um helluborð
Helluborðið er eitt mest notaða tækið í eldhúsinu og því úr vöndu að ráða. Því er ágætt að hafa eftirfarandi ráðleggingar í huga þegar endurnýja á gamla helluborðið. Það eru 4 megingerðir af helluborðum til.
 
Spansuðuhelluborð
Spansuðuhelluborð hafa rutt sér til rúms síðustu ár og eru í dag meira seld en hefðbundin keramik helluborð. Tækninni hefur fleygt fram á undanförum árum, borðin eru orðin betri og verðið hefur snarlækkað. Kostir spansuðu eru ótvíræðir þar sem segulspólur undir helluborðinu mynda segulsvið sem síðan flytja orkuna í gegnum keramikglerið og í suðuflötinn á pottinum eða pönnunni sem hitnar samstundis. Með þessu næst fram mikið hagræði;
  • Hraði og tímasparnaður er gífurlegur. Hitun hefst nær samstundis og kveikt er undir pottinum og því engri orku sóað. Suðutími getur verið allt að 50% styttri en með hefðbundnum keramik hellum.
  • Öryggi - yfirborðshiti keramikglersins er lítill. Með spansuðu hitnar aðeins innihald pönnunar eða pottsins. Upphitunin er háð því að segulleiðandi pottur eða panna sitji á hellunni. Þannig kólnar glerið margfalt fyrr en með hefðbundnum hætti. Spansuða er algjörlega hættulaus heilsu manna og gerir börnunum kleift að taka þátt í eldamennskunni.
  • Hárnákvæm hitastýring - hitastýringin er svo nákvæm að hægt er að halda stöðugum lágum hita í langan tíma án þess að allt brenni fast við. Þannig næst ávallt hið rétta hitastig fyrir jafn ólíkar aðstæður eins og sjóða vatn eða hita mjólk.
  • Hagkvæmni - fyrir utan tímasparnað næst fram mikið hagræði við notkun. Um leið og potti eða pönnu er lyft af hellunni rofnar segulsambandið og engin orka er notuð. Rafmagns- og orkusparnaður er allt að 50%.
  • Auðveldari þrif – sjóði uppúr hjá þér, brennur vökvi ekki fastur við helluborðið líkt og á hefðbundnum helluborðum þar sem yfirborðshitinn er mun lægri.
  • Nú spyrja eflaust margir hvort gömlu pottarnir virki á þessar hellur. Nær allir nýir og nýlegir pottar virka á spanhelluborð. Hægt er að komast að því með því að sjá hvort segulstál festist við botninn á pottinum eða pönnunni. Geri hann það, getur þú verið viss um að pottarnir virki á spanhellum.
 
Keramik helluborð
Með keramik helluborði, er átt við helluborð þar sem glóandi hellur liggja undir keramik glerinu. Spansuðuborð eru líka með keramik gleri en glerið hitnar ekki á þeim.
 
Keramik helluborð finnast í mörgum stærðum og gerðum og eru orðin hraðvirkari og skilvirkari en áður, þrátt fyrir að spansuðuborðin séu fyrirferðarmeiri á markaðinum í dag. Allar gerðir og tegundir af pottum er hægt að nota á keramik helluborð.
 
Gashellbuborð
Margir sem hafa prófað að elda á gasi, segjast ekki vilja sjá annað. Bæði næst fram mikill og hraður hiti á gashelluborðum og mörg hafa svokallaðan WOK brennara. Gashelluborðin má fá í mörgum stærðum og gerðum.
 
Helluborð með steyptum hellum
Þessi helluborð eru orðin frekar fáséð, þar sem kostirnir eru fáir. Upphitunartíminn er langur og hellurnar eru lengi heitar og hættulegar börnum eftir notkun. Þessi tegund borða eru yfirleitt fremur ódýr.
 
Stærð  
Algengustu helluborðin eru 60 cm breið, en einnig má finna 30, 70, 80, 90 og 100 cm breið helluborð. Dýptin er nær alltaf sú sama eða 50-51 cm.
 
Booster háhraðastilling
Flest spansuðuhelluborð bjóða uppá Booster háhraðastillingu, annaðhvort á einni, tveimur eða öllum hellunum. Þessar hellur hita tímabundið leifturhratt t.d. til að ná upp suðu á kartöflunum eða til að snöggsteikja WOK rétt.
 
Klukka
Mörg helluborð með snertitökkum hafa klukku eða mínútu úr með niðurtalningu og hljóðmerki í lokin.
 
Suðusjálfvirkni
Sum helluborð hafa tækni sem lækkar hitann sjálfkrafa við suðu. Þannig getur maður sett kartöflurnar yfir og látið helluborðið sjá um að hita vatnið á mesta hita til að ná upp suðu, og lækka síðan hitann svo að þær bullsjóði ekki.