Ráðleggingar um kæli- og frystiskápar
Oft getur úrvalið af kæli- og frystiskápum virst yfirþyrmandi við fyrstu sýn, en þegar betur er að gáð ættir þú að geta fundið rétta skápinn sem er sniðinn að þínum þörfum.
Mál
Hæð kæli- og frystiskápa er æði misjöfn og spannar allt frá 50 – 200 cm. Breiddin er aftur á móti meira stöðluð. Minni skápar eru yfirleitt 50 eða 55 cm breiðir, á meðan hærri skápar eru flestir 60 cm breiðir.
Tegundir
Til eru kæliskápar sem eru án frystis, með aðskildum frysti eða innbyggðu frystihólfi. Frystihlutinn getur ýmist verið að ofan- eða neðanverðu.
Affrysting
Nær allir kæliskápar hafa sjálfvirka affrystingu í kælihlutanum. Á undanförnum árum hafa skápar með affrystingu í frystinum notið meiri vinsælda, enda lúxus að sleppa við umstangið. Þessi tækni er stundum nefnd NoFrost eða FrostFree og byggir á eyðingu raka í frystinum sem myndi ella mynda hrím og síðar klaka og skorða skúffur af, eyða meira rafmagni og takmarka pláss.
Kælitækni
Einfaldari gerðir hafa einungis kælielement sem kuldagjafa í kælihlutanum. Betri gerðir tryggja jafnara flæði kalds lofts um allan skápinn og lengja því líftíma matvæla og stuðla að meiri ferskleika. Þannig er munur á hæsta og lægsta hita í slíkum skápum um 1°C á meðan hitastigið getur sveiflast um allt að 5°C í hefðbundnum skápum.
Innrétting
Allir kæliskápar koma með glerhillum sem staðalbúnaði í dag. Sumir hafa flöskurekka og aðrir eða sömu hafa grænmetisskúffur með rakastýringu svo að grænmeti og ávextir séu geymdir við kjöraðstæður. Æ fleiri skápar koma nú með LED lýsingu sem er bæði bjartari, meira orkusparandi og endingarbetri ljósgjafi.
Betri gerðir eru búnir rafeindastýrðri hitastýringu og hafa LCD upplýsingaskjá. Þar er hægt að fylgjast með hitastiginu í skápnum, sem og velja hraðfrystingu eða hraðkælingu og fleira.