Þurrkarar

Ráðleggingar um þurrkara
Þurrkarar eru oft ómissandi þarfaþing, sérstaklega á votviðrisdögum og á veturna. Þurrkarinn er eitt af þeim tækjum sem nota hvað mesta orku á heimilinu og því mikilvægt að horfa á slíkan grip sem langtímafjárfestingu þegar velja á nýjan. Neðangreind ráð ættu að nýtast vel.
 
Tegundir
Annarsvegar eru til þurrkarar með barka, þar sem gufan er leidd út í gegnum gat á húsinu, glugga eða lofttúðu.  Hinsvegar barkalausir þurrkarar sem eru algengastir, þar sem þeir þétta gufuna og skila henni í fljótandi formi, annaðhvort í niðurfall eða í sérstakan tank í þurrkaranum.
 
Orkunotkun
Barkaþurrkarar eru nær undantekningarlaust í orkuflokki C, sem þýðir að orkuþörfin er frekar há. Barkalausir þurrkarar nýta orkuna oft betur og lenda yfirleitt í orkuflokki B. Á undanförnum árum hafa nýir þurrkarar rutt sér til rúms og byggja á allt annari tækni. Þessir þurrkarar nota allt að 50% minni orku en nauðsynlegt er til að uppfylla Evrópustaðal  A. Sé þurrkarinn notaður mikið er sparnaðurinn umtalsverður.
 
Hleðslugeta
Hægt er að fá þurrkara sem taka frá 5 og uppí 8 kíló af taui og ætti að vera í nokkru samræmi við afköst þvottavélarinnar hjá þér.
 
Rafeinda- eða tímastýrðir
Nær allir þurrkarar eru í dag rafeindastýrðir og með rakaskynjara. Það þýðir að í stað þess að velja og áætla tíma, nema litlir skynjarar rakastigið í tauinu. Þegar völdu rakastigi eða þurrkstigi er náð, stöðvast þurrkarinn sjálfkrafa og lætur þig vita með stuttu hljóðmerki.
 
Kerfi
Rafeindastýrðir þurrkarar hafa yfirleitt úr fjölmörgum kerfum að velja, sem henta mismunandi gerðum af fatnaði, svo að hann slitni sem minnst og skreppi ekki saman.  Betri gerðir hafa kerfi sem eru sérhönnuð fyrir ull og sérlega viðkvæman fatna.
 
Önnur þægindi
Fullkomnari gerðir hafa skjá sem sýna eftirstöðvar þurrktímans. Aðrir hafa að auki tromlu sem verndar tauið svo það slitni síður.  Sumir þurrkarar hafa sömuleiðis innbyggða lýsingu.