Það er fátítt að íslensk fyrirtæki nái háum aldri, en um þessar mundir eru liðin 85 ár frá stofnun Raftækjaverksmiðjunnar hf. í Hafnarfirði eða Rafha. Allir þekkja Rafha eldavélina, en um skeið framleiddi Rafha mun fleiri tegundir raftækja. Framleiðslu var hætt árið 1990 en verslun Rafha er enn starfandi.
Verksmiðja Rafha var reist á syðri bakka Lækjarins í Hafnarfirði á árunum 1936–37. Verksmiðjuhúsin voru stækkuð mikið tvívegis á sjötta áratugnum, enda mikill uppgangur í framleiðslunni á þeim árum. Mynd Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Hugmyndin að stofnun Rafha kviknaði um þær mundir sem unnið var að smíði Sogsvirkjunar. Heimilin voru að rafvæðast og það vantaði rafmagnstæki. Að tillögu Emils Jónssonar, þingismanns Hafnfirðinga, samþykkti Alþingi árið 1936 að verja 50 þúsund krónum úr ríkissjóði til stofnunar raftækjaverksmiðju. Það varð úr og Rafha var formlega stofnað 29. október 1936, en íslenska ríkið fór með þriðjungshlut á móti 22 einstaklingum.
Nokkur helstu Rafha heimilistækin. Þarna má meðal annars sjá eldri og yngri gerð eldavélanna og þvottavélina Mjöll sem var framleidd í samstarfi við Vélsmiðjuna Héðinn. Mynd Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Hráefni til framleiðslunnar voru í fyrstu keypt frá Norðurlöndum og Þýskalandi, en eftir að stríðið braust út stefndi í að framleiðslu yrði hætt þar sem öll aðföng skorti. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Axel Kristjánsson, hélt því vestur um haf og aflaði hráefna til framleiðslunnar í Bandaríkjunum. Nú breyttist útlit Rafha eldavélanna og þær tóku á sig amerískt svipmót sem sást meðal annars á spírallaga hellum.
Framleiðslan stórjókst eftir stríð og samið var við sænska fyrirtækið Electrolux um notkun einkaleyfa þeirra. Meðal nýjunga má nefna Rafha ryksugur og þvottavélaina Mjöll, sem framleidd var í samstarfi við Vélsmiðjuna Héðinn. Einnig voru framleiddir rafmótorar, bökunarofnar, lausir ofnar, þilofnar, þvottapottar, kæliskápar, frystikistur, kælitæki fyrir verslanir, flúrlampar, kaffikönnur, gufukatlar, vatnshitunartæki, miðstöðvarhitarar, kæliborð, rörofnar, steikarpönnur, spennubreytar og rafmagnstöfluskápar. Á 25 ára afmælinu 1961 höfðu verið framleidd yfir 108 þúsund raftæki.
Rafha ryksugan leit dagsins ljós árið 1952, en í stríðslok samdi Axel Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rafha, við sænska fyrirtækið Electrolux um notkun einkaleyfa þeirra og ýmsa aðra samvinnu. Mynd Byggðasafn Hafnarfjaðar.
Innflutningshöft voru að nokkru leyti afnumin þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum 1959 og aftur í kjölfar inngöngu Íslands í EFTA 1970. Framleiðsluvörum fækkaði verulega á sjöunda og áttunda áratugnum vegna aukinnar samkeppni, en um 1980 voru enn framleiddar árlega 1500 eldavélar í Rafha, sem var um 35% af heildarsölu eldavéla hér á landi á þeim tíma. Þá hófst einnig innflutningur á heimilistækjum frá erlendum heimilistækjaframleiðendum.
Á níunda áratugnum framleiddi Rafha um 4000 eldhúsviftur á ári sem meðal annars voru fluttar út til Noregs, Danmerkur og Bretlands. Meðal annarra framleiðsluvara á þessum árum má nefna rafhitara, eldhústæki fyrir stærri eldhús og mötuneyti, álglugga og flúrskinslampa.
Árið 1990 var rekstri þessarar merkilegu verksmiðju hætt. Verslunarhlutinn, viðskiptatengsl og nafnið Rafha var þá selt þáverandi framkvæmdastjóra Ingva Ingasyni og fjölskyldu hans sem hélt fyrirtækinu gangandi og þjónustaði áfram tugþúsndir viðskiptavina. Nokkru síðar var verslunin flutt á Suðurlandsbraut 16 í Reykjavík og starfar þar enn. Í dag flytur Rafha inn og selur heimilistæki frá heimsþekktum framleiðendum á borð við Electrolux, Zanussi, AEG, Siemens, Bosch, Domo ásamt eldhúsinnréttingum frá danska merkinu KVIK.