Ráðleggingar um uppþvottavélar
Uppþvottavélar nota minna vatn og orku en hefðbundinn uppþvottur. Sparneytnar vélar nota allt niður í 1,02 kW af rafmagni og um 10 lítra af vatni til þess að þvo fullnýtta vél (120 einingar af borðbúnaði). Uppþvottavélar tryggja einnig betra hreinlæti og veita öruggari sýklavörn þar sem hitastig vatnsins er hærra en hendurnar þola, uppþvottaefnin öflugri, skolunin betri og þurrkunin með heitu lofti - mun heilbrigðari en með viskastykki.
 
Stærðir
Smávélar eru litlu stærri en örbylgjuofnar og eru hannaðar til að sitja ofan á borðbekk eða byggja inní skáp. Þær taka yfirleitt borðbúnað fyrir 5-6 manns. Mjóar uppþvottavélar eru 45 cm breiðar og rúma borðbúnað fyrir 8-9 manns. Þessi vél getur hentað þar sem pláss er lítið eða fáir í fjölskyldu. Hefðbundnar stærðir eru fyrir 12 manna borðbúnað og 60 cm breiðar.
 
Tegundir
Algengustu vélarnar koma með frágenginni framhlið frá framleiðanda og er ætlað að setja inn undir borðplötu. Þessar vélar koma án toppplötu og aðeins framhliðin er sýnileg. Frístandandi vélar finnast einnig, en þá eru allar sýnilegar hliðar lakkaðar og þær koma með toppplötu. Þær eru líka þyngri, enda fá þær ekki stuðning frá borðplötu sé fullhlaðin grind dregin út með leirtaui.
 
Innbyggð uppþvottavél fellur alveg inn í innréttingu og kemur án frágenginnar framhliðar. Hurð t.d. úr harðviði er síðan komið fyrir framan á vélina svo að hún sé í stíl við eldhúsinnréttinguna. Til eru tvær mismunandi útgáfur af innbyggðum vélum. Alinnbyggðar vélar eru ætlaðar til að þær séu ekki sýnilegar í eldhúsinu þ.e. stjórnborð vélarinnar er að ofanverðu og þegar vélinni er lokað hverfur það úr sjónlínu. Hálfinnbyggðar vélar eru með sýnilegu stjórnborði.
 
Hljóðstig
Trúlega sú spurning sem brennur á vörum flestra. Hljóðlát uppþvottavél er lykilatriði í opnum eldhúsum. Hljóðlátustu vélarnar gefa frá sér 39-42 desibil fyrir hvert 1W, en það er nánast óheyranlegt fyrir mannseyra. Þú getur þó treyst því að ef vél á sama staðli er undir 50 dB telst hún vera þokkalega hljóðlát.
 
Orkunýtni, þvotta- og þurrkhæfni
Allar vélar sem við seljum í dag fá að lágmarki 3 x A einkunn fyrir orkunýtni, þvottahæfni og þurrkhæfni. Framleiðendur keppast við að bæta orkunýtnina og því fá margar vélar í dag einkunina A+ eða A++, en hver plús jafngildir 10% minni orkunotkun en nauðsynlegt er til að fá einkunina A.
 
 
Þvottakerfi
Algengustu þvottakerfin eru fyrir almennan þvott, hraðkerfi, sparnaðarkerfi og kerfi fyrir mikil óhreinindi s.s. potta og steikarföt. Aðrar vélar hafa einnig glasakerfi sem þvo við 40-45°.
 
Betri uppþvottavélar hafa svokallað sjálfvirkt kerfi sem sjálft reiknar út nauðsynlegan tíma, hitastig og vatnsþörf, allt eftir hve óhreint er í vélinni. Þetta gerir vélin með sérstökum skynjurum sem gegnumlýsa vatnið allt að 10.000 sinnum í einum þvotti, og meta stöðugt raunverulega þörf á að lengja eða stytta kerfið, breyta hitastiginu eða bæta við vatni.
 
Margar vélar í dag hafa sérval fyrir uppþvottatöflur, oft nefnt 3 í 1 kerfi. Við það lengist þvottatíminn aðeins og vélin sleppir gljáefnainntöku.
 
Innrétting
Innrétting í vélunum er mjög misjöfn og hefur breyst mikið síðustu ár. Sumar gerðir eru rýmri en aðrar og bjóða uppá sérstök þægindi fyrir mismunandi hluti, einsog glös á fæti, háa diska, hnífapör og eldhúsáhöld. Flestar vélar bjóða uppá hæðastillanlega efri þvottakörfu og niðurfellanlegar diskastoðir.
 
Vatnslekavörn
Tryggir að vatnsaðrennsli stöðvist komi upp leki eða vélin yfirfyllist. Þetta fylgir með sumum vélum, en með öðrum er hægt að kaupa slíkan búnað aukalega.
 
Þvottaarmar
Yfirleitt eru sprautuarmar tveir í vélinni, einn fyrir miðju og annar í botni. Sumar vélar eru útbúnar úðastút eða sprautuarmi efst í vélinni fyrir betri virkni. Electrolux Real Life og AEG ProClean vélarnar eru með nýjum byltingarkenndum þvottaarmi sem er hannaður miðað við nútíma aðstæður. Þeir þvo betur við allar aðstæður, líka þegar vélin er mikið hlaðin og hlutum raðað tilviljanakennt hver ofaná annan.
 
Önnur þægindi
Margar vélar bjóða uppá framstillta ræsingu, allt að 24 klukkustundir fram í tímann. Sömu vélar hafa þá líka stafrænan skjá á stjórnborðinu sem sýnir lengd kerfisins og eftirstöðvar þvottatímans.
 

Kíktu við í verslun okkar

Suðurlandsbraut 16
108 Reykjavík
Sími 5880500
Netfang rafha@rafha.is
 

Vertu með í netklúbbnum
 
Fáðu nýjustu tilboðin, njóttu sérkjara
og taktu þátt í léttum leikjum
 

Fylgstu með á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012